Færsluflokkur: Íþróttir

Endaði 10 km S af Kópaskeri 1875 km eftir

Enn einn éljadagurinn og hiti við 0 gráður. Íbúar Kópaskers hættu sér ekki útúr húsi til þess að ganga með mér. Ég skaust ásamt Fúsa bílstjóra í kaffi til þeirra á bensínstöðina eftir gönguna. Það var góður endir á annars erfiðum göngudegi. Á morgun enda ég nálægt Ásbyrgi og skipti um svefnstað og gisti á Húsavík aðra nótt.

 


Endaði við Leirhöfn 1900 km eftir

Þetta var kaldur dagur og gekk á með éljum og hvasst á köflum. Á morgun klára ég Melrakkasléttuna. Við Fúsi höfum undanfarnar nætur sofið í Ytra Álandi í Þistilfirði. Þar er mjög gott að vera. Ég set meira um Ytra Áland næstu daga.

Gekk framhjá Raufarhöfn og 2 km framhjá Hraunhafnartanga -1925 km eftir

Þetta var mjög skemmtilegur dagur. Nemendurnir í grunnskólanum á Raufarhöfn ásamt kennurum og skólastjóra tóku á móti mér við bæjarmörk Raufarhafnar og löbbuðu með mér í gegnum bæinn. Þau voru mjög spennt yfir þessu og spurðu margra spurninga. Nokkur voru áhyggjufull yfir hvort að ég nærðist ekki á leiðinni og gáfu mér af nestinu sínu banana og gulrætur. Ég tók þessu með þökkum og þetta kom sér vel yfir daginn. Kortið sem er fyrir daginn í gær er ekki alveg rétt. Ég er kominn lengra en það sem það sýnir. Ég er kominn núna framhjá nyrsta odda Íslands Hraunhafnartanga og kominn á leið suður aftur. Kuldinn var enn mikill og golan köld. Fúsi aðstoðarmaður hætti sér útúr bílnum við Hraunhafnartanga og varð næstum úti við þá raun. Á morgun mun ég enda við Leirhöfn. Ég er búinn að reikna það út að ég verði á Akureyri seinnipartinn 28. mai. Daginn eftir kosningar.

Kláraði Fjallgarð 1950 km eftir

kort4_svalbar.gif
Ég gekk yfir Fjallgarð í dag sem er á milli Þórshafnar og Raufarhafnar. Töluvert af brekkum. Það var kalt í dag og köld gola. En það sem drepur mann ekki herðir mann. Við fórum í sundlaugina á Þórshöfn á eftir. Á morgun fer ég framhjá Raufarhöfn og enda við Hraunhafnartanga sem er Nyrsti tangi á Íslandi. Eftir það fer ég suður til Akureyrar og Húsavíkur

Fór frá Þórshöfn og að Svalbarð 1975 km eftir

ég var í fínu formi efir hvíldardaginn í gær og leifði mér að spretta úr spori fyrstu 10 km sem kom niður á síðustu 15. Maður lærir seint. Þetta var annars frekar tíðindarlítill dagur. Veðrið var 0-3 stiga hiti og stundum smá snjómugga. Á morgun fer ég frá Svalbarði og yfir Fjallgarð.


Þakkir til allra stuðningsmanna og kvenna

Ég þakka öllum kærlega fyrir falleg orð í minn garð og hvet fólk til þess að halda áfram að peppa mig upp því að ég eflist við það andlega og líkamlega á göngunni

Hvíldardagur í dag

Hér á Vopnafirði er gott veður þannig að ég ákvað að hvíla í dag. Við Fúsi fórum í sundlaugina í Selárdal. Það er lítil 12 m útisundlaug og 2 heitir pottar. Það kostar ekkert í hana og það er ekkert rafmagn í búningsklefum. Þeir eru lístir upp af kertum sem maður kveikir á þegar maður klæðir sig úr. Sundlaugin á Þórshöfn er innisundlaug og virkar þannig að maður hringir í sundlaugarvörðinn þegar maður ætlar að fara í laugina og hann opnar fyrir manni. Þetta er allt mjög heimilislegt á þessu svæði. Ég og Fúsi aðstoðarmaður gistum í góðu yfirlæti á Hótel Tanga á Vopnafirði. Maturinn þar er eftirminnilega góður og öll aðstaða þar til fyrirmyndar. Á morgun byrja ég þar sem frá var horfið í gær og enda 25 km frá Þórshöfn

Endaði 1 km frá Þórshöfn á Langanesi 2000 km eftir

Þórshöfn
Veðrið var mjög gott. Kalt 0-2 gráður en nánast logn og engin úrkoma. Fengum okkur kaffi hjá Sigurvin í Hofi undir Gunnólfsvíkurfjalli. Kláraði að ganga Brekknaheiði. Þrátt fyrir nafnið eru ekki margar brekkur í henni. Búinn að labba 200 km síðan á Egilstöðum. Á morgun geng ég 25 km frá Þórshöfn á Laganesi í átt að Raufarhöfn

Endaði við Miðfjörð í Bakkafirði 2025 km eftir

Ég gekk frá miðri Sandvíkurheiði og að Miðfirði í dag í miklum snjóbyl en hægum vindi. Nokkuð var um að fólk stoppaði okkur Fúsa til að spjalla og allir á svæðinu virtust vita um gönguna. Nokkrir fjölmilar á svæðinu komu til þess að taka myndir og viðtal. Við keyrðum um Bakkafjörð á leiðinni til baka. Á morgun enda ég 3 km frá Þórshöfn á Langanesi og fer Brekknaheiði.

Endaði á miðri sandvíkurheiði - 2050 km eftir

Veðrið í dag var snjókoma og rok. Kláraði 25.5 km. Ég gekk í gegnum Vopnarfjarðarkaupstað og endaði á miðri Sandvíkurheiði á milli Vopnafjarðar og Bakkafjarðar.Ég fór að heyra í kríum í fyrsta skiptið í ferðinni. Ekkert annað markvert gerðist í dag nema að ég bjó til nýjan málshátt

Þú borðar ekki afturábak (Það sem þú er búinn að borða ertu búinn að borða)

Annar málsháttur sem ég hef búið til handa golfurum

Fjarlægðin gerir fjöllin blá og langt að slá (Skilst sjálfvirkt)

 

Á morgun fer ég framhjá Bakkafirði og 7 km í átt að Þórshöfn

Ég frétti að feiti maðurinn Steave á www. fatmanwalking.com er búnn að ljúka sinni göngu yfir þver Bandaríkin. Þetta er frábært afrek. Hann vó yfir 200 kg áður en hann fór frá heimili sínu í LA og gekk til New York. Hann var 13 mánuði að þessu enda eru þetta 3300 mílur eða um 6000 km leið yfir eyðimerkur og fjallgarða.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband